Sanngjarn dómur - þó ekki

Það hlýtur að vera ansi mikið áfall að fá haglabyssuhlaup í ennið á sér.  Get ímyndað mér að það taki langan tíma að jafna sig eftir slíka lífsreynslu.  Óskiljanlegt hvernig hann náði að loka hurðinni áður en gæjinn hleypti af, en heppinn var hann.  Þetta hlýtur að teljast sanngjarn dómur, 6 ár fyrir morðtilraun.  En ætli það sé þessi skilgreining sem ráði dóminum?  Semsagt það að þetta flokkist undir morðtilraun (misheppnaða þó), sé það sem dómurinn snýst um.  Ekki skaðinn sem gjörningurinn hefur væntanlega valdið fórnarlambinu? 

Ég er nefninlega að velta því fyrir mér hvernig hægt er að dæma kynferðisbrotamenn til léttvægari refsinga en þennan glæpamann sem hér um ræðir.  Í mínum huga er það ekki skilgreiningin á glæpnum sem á að ráða dóminum heldur fyrst og fremst skaðinn sem glæpurinn olli.  Og í ljósi þess þykja mér þessir kynferðisbrotadómar allt, alltof vægir.  Lengsti dómur sem ég man eftir í slíku máli er 5 ára fangelsi fyrir að hafa notað dætur/stjúpdætur sínar sem kynlífsdúkkur í áraraðir.  

Með fullri virðingu fyrir fórnarlambinu í þessum umrædda glæp og því sem hann hefur þurft að þola þá get ég ekki ímyndað mér að þetta sér erfiðari lífsreynsla en sú lífsreynsla sem fyrrnefndar stúlkur hafa þurft að ganga í gegnum.  Hvers vegna í ósköpunum fær þá þessi glæpamaður mun hærri dóm en hinir glæpamennirnir, sem ég tel að hafi valdið töluvert meiri skaða?

Getur einhver vinsamlegast útskýrt þessi fræði fyrir mér því ég er ekki að botna þetta. . . . . 


mbl.is Sex ára fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Óskiljanlegt hvernig hann náði að loka hurðinni áður en gæjinn hleypti af, en heppinn var hann.

 Svo segir þú að ofan. Frá blautu barnsbeini hef ég lokað dyrum með hurð eða treystirðu þér til að loka tappanum. Það er hins vegar hægt að segja að maðurin hafi verið heppin að ná því að leggja hurð að stöfum

Lokar maður ekki flösku með tappa

Sigurður Grétar Guðmundsson, 16.2.2010 kl. 17:02

2 identicon

Það á að framselja alla kynferðis afbrota menn þar með barnaníðinga út í erlend fangelsi ef pláss leysið er vandamálið.

Arnar Björnsson (IP-tala skráð) 16.2.2010 kl. 18:27

3 Smámynd: Páll Jónsson

Arnar: Því að erlend ríki vilja ólm flytja inn kynferðisafbrotamenn til afplánunar?

En það er svolítið hæpið að byggja þyngd dóma á því hversu miklum skaða er valdið í hverju tilviki, það hlýtur að vera gríðarlega persónubundið hvaða áhrif svona atburðir hafa á fólk. 

Páll Jónsson, 16.2.2010 kl. 18:43

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ég tek undir með þér að dómar fyrir kynferðisglæpi eru allt of vægir, raunar til skammar.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 16.2.2010 kl. 19:45

5 Smámynd: Páll Jónsson

Eiginlega hneyksla mig meira dómar fyrir ofbeldisbrot. Skilorðsbundinn dómur virðist því miður oft vera standardinn þegar einhver saklaus maður er barinn í stöppu niðri í bæ.

Það að benda væntanlegum ofbeldismanni á að hann gæti átt refsingu í vændum virðist bara skapa hlátur samkvæmt minni reynslu.

Að því sögðu þá er auðvitað viðbúið að fullir menn niðri í bæ hlæi að þér þegar þú bendir þeim á refsiviðurlög... Líklega það nördalegasta sem ég hef gert á ævinni í bæjarferð  

Páll Jónsson, 16.2.2010 kl. 21:44

6 Smámynd: Sigrún Einars

Kæri Sigurður.  Biðst innilega afsökunar á þessari yfirsjón minni.  Auðvitað lokar maður ekki hurðum frekar en maður lokar töppum.  Veit betur en var bara ekki að vanda mig.  Veit uppá mig sökina ;-)

Arnar, ég er sammála Páli.  Hvaða land heldurðu að sé tilbúið til að FLYTJA INN kynferðisbrotamenn?  Eða nokkra aðra tegund af brotamönnum, ef út í það er farið?

En Páll.  Auðvitað er persónubundið hversu miklum skaða slíkir atburðir valda og aldrei hægt að mæla það.  Hinsvegar held ég að það sé nokkuð víst að ofbeldi, af hvaða tegund sem er, veldur sálartjóni.  Kannski var þetta rangt orðað hjá mér.  Hefði kannski frekar átt að tala um "tegund" tjóns frekar en "magn" tjóns. 

Fullorðinn karlmaður sem fær byssuhlaup í andlitið einu sinni á kannski auðveldara með að vinna úr því sálartjóni en barnungu stelpurnar sem eru kynlífsleikföng feðra sinna og stjúpfeðra í áraraðir.  Svo ég stend enn við sannfæringu mína um að dómar eiga að vera í samræmi við "möguleikann" á alvarlegu sálartjóni. 

En í þessu tilfelli ættir þú ekki að vera hneykslaður, þessi maður fékk 6 ára óskilorðsbundinn dóm.  Ekki mjög vægur fyrir þetta brot, a.m.k. ekki í samanburði við aðra dóma sem maður hefur lesið um.

Sigrún Einars, 16.2.2010 kl. 23:33

7 identicon

Ef fólk á að vera dæmt eftir því sálartjóni sem það veldur, burt séð frá verknaðnum sem slíkum, þá erum við komin í tómt rugl.  Á þá  t.d. að dæma menn fyrir framhjáhald? Framhjáhald getur ollið mjög miklum sálarskaða.  Miðað við það sem þú segir þá er það alveg út í hött að framhjáhald skuli vera refsilaust samkvæmt lögum? Það gengur ekki upp samkvæmt þínum "rökum". Þú verður að fara að berjast fyrir þungum refsingum við framhjáhaldi.

Siggi (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 04:09

8 identicon

Framhjáhald er ekki refsilaust í lögum það varðar 2 ára fangelsi ef giftur maður eða gift kona halda framhjá það er bara refsilaust ef þú ert ógiftur

siggi (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 08:15

9 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Siggi, þegar nauðgarar beita t.d. lyfjum eða öðru þvíumlíku eða fórnarlambið er ofurölvi og getur því ekki spornað við verknaðinum þá er oftast lítið um beina líkamlega áverka. Áverkarnir eru fyrst og fremst sálrænir og ólíkt líkamlegum áverkum þá gróa slík sár því miður seint og illa, jafnvel aldrei. Eru aðeins sýnilegir áverkar marktækir að þínu mati?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 17.2.2010 kl. 12:49

10 Smámynd: Sigrún Einars

Siggi, ég er eingöngu að tala um hegningarlagabrot.  Veit ekki hvort framhjáhald flokkast undir hegningarlagabrot en slík hegðun veldur oft miklum sálrænum skaða, ekki aðeins hjá maka þess sem heldur framhjá heldur börnum á heimilinu einnig.  Annars er ég bara að benda á misræmið í þessum dómum miðað við afleiðingar glæpanna.  Hvort að fólk fari að taka uppá því að kæra maka sína fyrir framhjáhald eða ekki er algerlega undir þeim komið og ef það er refsivert eins og hinn Siggi segir þá hljóta menn að sjálfsögðu að fá dóma skv. því ef sekt er sönnuð.  En ég hef meiri áhyggjur af kynferðisbrotaþolendum.  Og þá sérstaklega börnum.  Þarf ekki að berjast fyrir öllu þó mér detti í hug að benda á misræmi í dómum.

Sigrún Einars, 17.2.2010 kl. 17:00

11 Smámynd: Páll Jónsson

Framhjáhald er vitanlega ekki lögbrot svo því sé haldið til haga

Páll Jónsson, 17.2.2010 kl. 17:08

12 identicon

191 gr. almennra hegningalaga Ef nokkur misbýður með stórfelldri vanrekslu eða móðgun eiginkonu sinni eða eiginmanni barni sínu eða unglingi bla bla bla  2 ár

188 gr. almennra hegningalaga Ef kvæntur maður eða gift kona gengur að eiga aðra konu eða annan mann, þá varðar það fangelsi allt að 3 árum 

gæti þetta ekki flokkast sem framhjáhald það þarf ekki að standa í skýrum orðum til að vera í lögum alveg eins og með allar þessar tilraunir tilraun til manndráps er 211 gr. hgl.  en þar stendur hver sem sviptir annan mann lífi skal sæta fangelsi ekki skemur en 5 ár  eða ævilangt    meðan 4mgr. 220 gr. hgl. segir Fangelsi allt að 4 árum skal sá sæta sem í ábataskyni, af gáska eða annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska þá spir maður sig hvort er nær tilraun til manndráps og ég tala nú ekki um 218 gr sem er ennþá skýrari lögin eru skemtileg til umhugsunar og hvenar er farið útfyrir lögin og hvenar ekki 18 gr. sml. segir að lögregla og ákæruvaldið verði að sýna fullt hlutleysi í meðferðum dóms ég held að um 90% af föngum gætu sagt frá því hvernig var brotið á þeim en auðvitað eru þeir bara að ljúga kv. Sigurður bókaormur

siggi (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 21:38

13 Smámynd: Sigrún Einars

191. gr:  Túlkunaratriði hvort framhjáhald teljist undir vanrækslu eða móðgun, veit ekki til þess að reynt hafi á þessa túlkun.  Ætla ekki að hafa neina skoðun á því akkúrat núna.

188. gr:  Hér er um tvíkvæni að ræða skv. þessu, ekki framhjáhald.  Þó að tvíkvæni geti eflaust flokkast undir framhjáhald ef þetta er túlkað stíft þá er það samt sem áður ekki gert refsivert í þessari grein heldur sá verknaður að ganga í nýtt hjónaband án þess að hafa slitið fyrra hjónabandi.

En Siggi, við erum komin út fyrir efnið hérna.  Þetta blogg fjallar ekki um framhjáhald heldur hlægilega væga dóma fyrir kynferðisafbrot í samanburði við önnur brot.  Vil ég þá líka nefna grein sem ég las (man ekki fyrir mitt litla líf hvar ég fann hana, kannski var það í DV í dag) þar sem fjallað var um dóma blaðamanna fyrir "ærumeiðandi" skrif og þær háu bætur sem þeir hafa þurft að greiða fyrir slíkt í samanburði við skammarlega lágar bætur sem þolendur kynferðisofbeldis eru dæmdar.

Og ég spyr:  Hvenær verður tekið á þessari mismunun?  

Sigrún Einars, 18.2.2010 kl. 13:58

14 Smámynd: Páll Jónsson

191. gr. var felld úr hegningarlögunum árið 2006, en þess utan sé ég engin dæmi þess að henni hafi verið beitt um framhjáhald. 

En það verða alltaf vandræði að fara fram á háar bætur í svona málum nema komið verði á refsikenndum skaðabótum á Íslandi (hvað sem okkur finnst um þá hugmynd að öðru leyti). Eins og er þá er óskaplega erfitt fyrir þessi fórnarlömb að sýna fram á milljónatjón.

Páll Jónsson, 18.2.2010 kl. 14:28

15 Smámynd: Sigrún Einars

Æra manna er semsagt dýrmætari en sál þeirra, ef marka má miskabætur sem dæmdar eru í skaðabótamálum þar sem blaðamenn þurfa að greiða tvöfalt hærri bætur fyrir að segja eitthvað ljótt en kynferðisbrotamenn þurfa að greiða fyrir grófa misnotkun á fórnarlömbum sínum. 

Er ekki að segja að það þurfi endilega að hækka bætur til kynferðisbrotafórnarlamba (þó það væri auðvitað sanngjarnast), ég er að fara fram á eitthvað samræmi í dómum.

Sigrún Einars, 18.2.2010 kl. 17:00

16 Smámynd: Páll Jónsson

Ég er að svo til sammála þér held ég. Helstu rökin gegn því að skaðabætur séu ekki háar eru vandræðin við að sýna fram á þær ef þú getur ekki bent beint á ákveðinn kostnað, en það ætti klárlega að vera jafnerfitt í meiðyrðamálum og í kynferðisbrotamálum.

Hins vegar vil ég benda á að það er tóm þvæla að Magnús hafi fengið 1,5 milljónir í bætur líkt og bent var á í DV, það var héraðsdómur í Hæstarétti fékk hann bara 600 þúsund. 

Páll Jónsson, 18.2.2010 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband