Þetta má laga

Ónefndum mönnum hefur tekist að sóða hér ansi mikið út, reyndar eru ekki fordæmi fyrir mikið meiri sóðaskap í íslensku stjórnmála- og viðskiptalífi.  En eins og allir vita er alltaf hægt að laga ALLT, það ættu þær að þekkja stöllur í Allt í drasli.  Þar er skíturinn skoðaður og greindur og svo er hendur hreinlega látnar standa fram úr ermum og drullunni mokað út, draslinu raðað snyrtilega upp, svo allir viti hvar allt er og þá má vel lifa góðu lífi á áður stórkostlega óhreinu heimili.

Hér skal það sama gert.  Nú er verið að skoða skítinn og hefur miklu verið rótað upp.  Nú þarf að ráðstafa honum á rétta aðila til greiningar.  Það er mikilvægt að það gerist sem fyrst svo að menn sitji ekki bara í drullumalli og skítkasti út næsta ár.  Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að rífast lengi um sama hlutinn.  Nú ættu menn að einbeita sér að því að FINNA LAUSN sem ALLIR geta sætt sig við og allar skyndiákvarðanir eru hér af hinum allra illsta, eins og berlega hefur komið í ljós í þessu máli hingað til.  Það gerir ekkert til þó málinu sé leyft að dala áfram aðeinsr á meðan fundin er lausn sem hefur hagsmuni HEILDARINNAR að leiðarljósi.

Rannsóknarblaðamenn; brettið upp ermarnar og vandið til verks.  Finnið sannleikann í þessu máli og birtið í aukablaði fyrir næsta sumar.  Það losnar oft um málbeinið hjá fólki þegar smá tími er liðinn frá atburðum.

Borgarstjórnarflokkar í minnihluta; skipið rannsóknarnefndir sem í sitja einungis fagmenn, hlutlausir og ótengdir þeim aðilum sem að málinu koma.  Góður tími þarf að fara í að skoða hvern og einn fyrir sig til að gæta þess að enginn rannsóknaraðila eigi neinna hagsmuna að gæta, á hvorugum vígvellinum.  Þetta er auðvitað sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að aðalsakaratriðið í þessu máli er meintur klíkuskapur.

Umboðsmaður alþingis: Það þarf enginn að segja þér hvað þú átt að gera, þú ert með það allt á hreinu og við treystum þér í þessu máli.

Almenningur: Stöndum vörð um lýðræðið og fylgjumst með málinu, EKKI GLEYMA þessu.  Sýnum samt þann þroska að vera ekki með skítkast, það er svo leikskólalegt, þetta drullumall.

Vilhjálmur og Björn Ingi: Stígið upp úr sandkassanum, farið úr pollagallanum og sýnið smá auðmýkt.  Hroki í svona aðstæðum er engum til góðs og rýrir lýðveldið.  Þegar svona mistök eiga sér stað er það auðsýnt að menn valda ekki þeirri ábyrgð sem á þá er lögð.  Þá eiga menn hreinlega að sjá SÓMA sinn í að SEGJA af sér með virðingu frekar en að hökta áfram á frekju, þrjósku og einhverri valdagræðgi.  Það er örugglega ógeðslega gaman að vera borgarstjóri og borgarfulltrúi og allt það, en það eru ekki réttindi.  Það eru fríðindi sem menn þurfa að vinna sér inn.  Ef mistökin áttu sér stað viljandi er engin spurning að menn eru þess ekki verðugir að gegna slíkum embættum og eiga að segja af sér, án umhugsunar.  Ef mistökin áttu sér stað óvart er engin spurning að menn valda ekki þessu starfi og eiga að segja af sér, án umhugsunar.  Það sem gerir menn mikla er kjarkur þeirra til að taka afleiðingum gjörða sinna.  Að lokum; takið ykkur Eyþór Arnalds til fyrirmyndar.  Hann keyrði fullur, keyrði á og stakk af frá slysstað.  Algjört klúður og óafsakanlegt fyrir mann í hans stöðu.  Það sem gerir Eyþór að meiri manni í mínum augum í dag er sú staðreynd að hann gékkst við brotinu, baðst afsökunar, iðraðist, sagði af sér, sætti sig við þann dóm sem hann fékk, fór í meðferð, tók út sína refsingu og varð svo hreinlega að betri manni.         

ALLIR: Það er alltaf hægt að TALA um allt, það þarf ekki að rífast. 

(p.s. EYÞÓR!! Þú ættir að taka þessa menn í námskeið um hvernig menn takast á við sín eigin klúður og komast út úr því með andlitið á sínum stað og meiri virðingu en áður, ekki veitir af!)


mbl.is Björn Ingi: Kauprétturinn var mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband