Var mig að dreyma . . .

. . .  eða er Mogginn ekki með á nótunum?

"Síðast var framið verslunarrán í Reykjavík í byrjun desember og tókst að hafa uppi á tveim grunuðum ræningjum samdægurs og endurheimta ránsfenginn".

Á milli jóla og nýárs var framið vopnað rán í 11-11 á Grensásvegi; maður með skíðagrímu á höfðinu ógnaði 15 ára afgreiðslustúlku með stórum veiðihníf með göddum á og rændi 10.000 krónum úr kassanum.  Hann komst undan með ránsfenginn og hef ég ekki heyrt fréttir af því að hann hafi náðst.   Eru Moggamenn búnir að gleyma þessum glæp eða var mig bara að dreyma?

Ég bý í þessu hverfi og hef sent börnin mín í þessa hverfisverslun okkar óteljandi sinnum að sækja mjólk og brauð og svoleiðis smotterí.  Þó ég hafi ekki sent þau svona seint að kvöldi þá ákvað ég samt, eftir þetta fyrra rán, að þau færu framvegis út í Hagkaup í Skeifunni eftir smotteríinu ef ég kæmist ekki sjálf.  Fyrir tveimur kvöldum síðan þurfti ég svo sjálf að fara út í búð eftir þessu smotterí og get ekki leynt því að mér var pínu órótt þegar ég renndi upp að búðinni um tíuleytið, varð hugsað til ránsins þarna um daginn.  En svo hugsaði ég með mér að varla yrðu framin tvö rán í sömu búðinni með tveggja vikna millibili og fór bara inn og sinnti mínu erindi. 

Og svo er framið annað vopnað rán í þessari sömu búð, tveimur vikum síðar.  Því miður 11-11 fólk, ég er hætt að versla hjá ykkur, þið munið ekki sjá mig þarna framar.

 

Annars myndi ég vilja benda rannsóknarlögreglumönnum á það að fyrir rúmum mánuði síðan varð ég vitni að því þegar u.þ.b. 5 karlmenn á aldrinum 20-35 ára gengu askvaðandi niður Grensásveginn, fyrir ofan Miklubraut, niður að Kebabhúsinu neðst á Grensásvegi.  Þeir voru ýmist á peysunni eða bolnum og einn var á hlýralausum bol í frostinu.  Tveir þeirra voru vopnaðir löngu stálröri og einhverju öðru barefli úr tré og fas þeirra sýndi greinileg merki þess að þeir hefðu rokið út úr húsi og væru á leið í bardaga, örkuðu áfram, voru æstir og ógnandi.  Við sáum þessa sömu menn svo tíu mínútum síðar fyrir utan Kebab húsið þar sem fjöldaslagsmál voru í uppsiglingu og tveir lögreglumenn reyndu að skakka leikinn.  Þessi "uppsigling" stóð yfir í einhvern hálftíma án þess að til átaka kæmi, svo allt virðist þetta nú hafa endað vel í þetta sinn. 

Athyglisvert þótti mér að við heyrðum enga íslensku í þessum látum, aðeins austur-evrópsk tungumál og við það brá mér óneitanlega.  Eru austur-evrópsk glæpagengi flutt í hverfið mitt?

Tveimur vikum síðar er svo framið vopnað rán í hverfisversluninni minni og tveimur vikum eftir það, enn annað vopnað rán í sömu búðinni. 

Eru einhver tengsl hér á milli? 


mbl.is Vopnað rán í 11-11 verslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Við búum í sama hverfi, ég get fullvissað þig um að það var Íslendingur sem rændi 11-11 i gær, búin að blogga um málið.

Ég er svo mikill stríðsmaður, að ég myndi aldrei láta svona vesalinga stoppa mig, fer reyndar eins sjaldan og ég get í þessa tilteknu verslun, því hún er sú dýrasta í bænum, en þó fer ég eftir smotteríi eins og þú kallar það, ef bráðliggur á.

Verum á varðbergi gagnvart glæpagengjum, en látum þau ekki eyðileggja líf okkar. 

Ingibjörg Friðriksdóttir, 12.1.2008 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband