Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

"Sannleikurinn" að baki Vofunni

Þetta er nú aldeilis ótrúlegt.  Hvað ef raunverulega sé um að ræða fjöldamorðingja, sem sé kona og vilji svo til að starfi í umræddri verksmiðju.  Væri það nú ekki fáránleg tilviljun.  En svo sleppur hún þar sem lögreglan telur að DNA hennar sé komið á bómullarpinnana vegna þess að hún hafi snert þá í verksmiðjunni en ekki vegna þess að það hafi raunverulega fundist á vettvangi.  Hvað ef þessi kona var bara hundleið verksmiðjugella sem dundaði sér við það í vinnunni að reyna að hugsa um hinn fullkomna glæp.  Svona til að létta sér lundina við (örugglega) hundleiðinlega vinnuna.  Og datt þetta snjallræði í hug að fremja nokkur morð en að káfa líka á nógu andskoti mörgum bómullarpinnum í vinnunni til að villa um fyrir lögreglunni.  Ætli það gæti verið . . . . .
mbl.is Eftirlýstur fjöldamorðingi væntanlega ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins heil hugsun

Megi þetta fólk vel lifa sem tók þessa ákvörðun, hef pirrað mig yfir skilningsleysi dagskrárstjóra í áraraðir og geri enn.  Nú get ég þó hætt að pirra mig yfir auglýsingum í kringum barnatíma og einbeitt mér að ömurlegri tímasetningu Skjás eins á efni sem hentar börnum en er sýnt of seint eða efni sem ekki hentar börnum og er sýnt of snemma.


mbl.is Engar auglýsingar í tengslum við barnaefni í Sjónvarpinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið er þetta fallegur kaffibolli. . . .

. . . .  mig langar í hann.

 Mér dytti hinsvegar ekki í hug að leyfa börnunum mínum að drekka þetta, þarf reyndar ekki að hafa mikið fyrir því að halda kaffi frá þeim.  Þau hafa öll smakkað kaffi og finnst það vitanlega vont, veit ekki um mörg börn sem geta látið kaffi inn fyrir sínar varir.

 Það er annað mál með orkudrykkina.  Í íþróttahúsinu, þar sem þau æfa karate oft í viku, sjá þau iðulega fullorðna íþróttamenn sötrandi á Gatorade og öðrum orkudrykkjum.  Þetta er svo líka selt í sjoppunni þar eða einhverjum sjálfsala.  Verst þykir mér þó að á öllum mótum (ath. þetta eru barna- og unglingamót sem ég er að tala um hérna) eru seldir orkudrykkir. 

Þetta er auðvitað bara enn eitt áreitið á okkur foreldrana.  Við þurfum að hafa stjórn á tölvuleikjum og sjónvarpsglápi, passa að þau vinni heimavinnuna, klæði sig eftir veðri, séu komin heim á réttum tíma, borði grænmetið sitt og ávextina með mat og milli mála og fái sér eitthvað annað en kex og kókómjólk í drekkutímanum.  Reka þau í rúmið á réttum tíma, drífa þau tímanlega á fætur, sjá til þess að þau bursti tennurnar og skipti um nærbuxur fyrir utan öll möguleg hegðunar- og agavandamál sem þarf að hafa stjórn á dags daglega svo þau taki nú ekki yfir heimilið.  Eins og flestum foreldrum ætti að vera ljóst er hér aðeins stiklað á stóru, því vinnan við uppeldi barna er svo miklu meiri en hér er upp talið.  Að þurfa að díla við svona rusl eins og orkudrykki er því bara enn annar dropinn í þetta mikla haf neitana sem við mömmur (og pabbar) þurfum að láta út úr okkur við börnin okkar á hverjum einasta degi.

Ég er blessunarlega mjög þrjósk og ef ég er búin að bíta það í mig að börnin mín fái ekki orkudrykki þá situr þar við og lítið sem fær haggað þeirri ákvörðun.  Hinsvegar eru ekki allir foreldrar blessaðir með þessum hæfileika og því mun auðveldara fyrir marga að láta undan hinu Eilífa Tuði en að standa á sínu, sér í lagi í ljósi þess að það er svo margt annað, mun mikilvægara sem við þurfum að vernda börnin okkar fyrir. 

En þó ég leyfi mínum börnum ekki að drekka orkudrykki þá dæmi ég ekki þá foreldra sem það gera.  Enda leyfi ég mínum samt að drekka kók og pepsí. 


mbl.is Koffín fyrir krakka?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkominn til Íslands

Ég verð að viðurkenna það, þó kaldhæðin sé, að ég gat ekki séð neinn húmor í þessari grein Lewis, heldur þvert á móti fannst mér skína í gegn vanþekking, neikvæðni og fordómar.  Ég gerðist því svo djörf að skrifa ritsjóra Vanity Fair og bjóða þeim að senda Lewis aftur til Íslands, í þetta sinn sem gestur á íslensku heimili (mínu s.s.) og kynnast íslenskum veruleika frá sjónarhorni einstæðrar móður með þrjú börn í miðri kreppu.  Það er skemmst frá því að segja að mér hefur enn ekki borist svar þrátt fyrir að hafa ítrekað tilboð mitt.  Ætlaði ekki einu sinni að rukka karlskömmina fyrir kostinn.  Ætli hann þori nokkuð?
mbl.is Íslendingar engir hálfvitar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband