Til Hamingju Ísland!

Ég lýsi því hér með yfir að ég er mjög stolt af því að vera íslendingur og þakka Guði fyrir að búa við jafn eðlilegt og náttúrulegt lýðræði og hér ríkir.  Til hamingju allir íslendingar, innlendir og erlendir, með glæsilega kosningu.  (Og þá er ég ekki að tala um Eurovision :)

Annars finnst mér ég tilneydd til að útskýra atkvæði mitt og um leið færa mín rök fyrir því hversvegna skoðanakannanir skulu leyfðar alveg fram að kosningum, og hér kemur það:

 Ég er semsagt yfirlýst Vinstri-græn og segi það hverjum sem heyra vill, þó ekki sé ég flokksbundin.  Ástæðan er einfaldlega sú að eini flokkurinn sem ég get sagt að tali fyrir minn munn í flestum málefnum eru Vinstri-grænir.  Einnig, og þetta er ekki síður mikilvægt, tel ég að Vinstri-grænir státi af stærstu hlutfalli heiðarlegs, ábyrgs og ráðvands fólks, af öllum flokkunum.  Það eru engar vísindalegar rannsóknir sem styðja þetta álit mitt, heldur einungis mitt súper góða innsæi og næmi fyrir öðru fólki.  Ég verð að treysta því, hvar væri ég annars?

 Anyhow, þá er ég ekkert að hengja mig í því að þykjast best vita hvernig öllum málum skuli háttað og hvernig öll mál skuli leyst, ég er ekki svo hrokafull.  Þetta má þó ekki skiljast þannig að ég hafi ekkert álit á neinum hlutum, heldur þvert á móti þá hef ég álit á flestum málum.  Ég er þó alltaf tilbúin til að skipta um skoðun EF einhver kemur með haldbær rök sem sannfæra mig um annað.  Að sama skapi tel ég að enginn viti best hvernig öllum málum skuli háttað og hálf þjóðin getur verið sannfærð um einhvern einn hlut en staðreyndin er sú að það er alltaf hinn helmingurinn sem er sannfærður um hið andstæða.  Og hver hefur þá rétt fyrir sér? 

Því hef ég haldið mig við það að betra sé að fylgja einstaklingum heldur en málefnunum því ég get með engu móti fylgt einhverjum ókunnugum manni að málum og kosið hans flokk, bara vegna þess að hann segir mér að það sé betra að gera hitt og þetta, svona og hinsegin.  Hann hefur bara ekkert alltaf rétt fyrir sér. 

Og þá er ég komin að aðalmálinu og því sem mestu skiptir þegar málum er svona háttað inni í höfðinu á manni; ef viðkomandi einstaklingur er óheiðarlegur, spilltur, óábyrgur, svikull osv.frvs. þá skiptir engu máli hvort hann hefur rétt fyrir sér eða ekki.  Allar hans gjörðir stjórnast af eiginhagsmunasemi og slíkt á ekki heima í stjórnmálum.  Ef viðkomandi maður er heiðarlegur, ábyrgur, óspilltur og ráðvandur þá getur hann ekki gert annað en það sem hann telur best fyrir þjóðina alla og það er nákvæmlega það sem ÉG vil sjá í stjórnmálum landsins.  Það sem er best fyrir þjóðina alla.

 Þess vegna er ég Vinstri-græn. 

En að atkvæðinu mínu.  Eins og Sjálfstæðismenn hafa verið svo duglegir að benda á, þá hefur Ísland náð gífurlega langt í efnahagsmálum undir þeirra stjórn og má alveg hrósa þeim fyrir vel unnin störf þó vissulega vanti mikið uppá að tekið hafi verið á öllum málum.  Efnahagsmálin skipta öllu máli, það má alls ekki horfa fram hjá því og ég hef helst verið hræddust um það að ný stjórn myndi eyðileggja þetta vel unna verk sem við búum við í dag og gerir flestum okkar kleyft að hafa það gott.  (Sjáið, ég sagði flestum, enda vantar enn svolítið uppá:)

Þar sem ég er mjög raunsæ manneskja geri ég mér fullkomlega grein fyrir því að Vinstri grænir hefðu aldrei náð svo miklu fylgi að ná meirihluta atkvæða í kosningum.  Hinsvegar vil ég ekki sjá Samfylkinguna með meirihluta, það má bara alls ekki ske, enda alltof mikið brambolt búið að vera á þessu fólki í þessum flokki til að ég þori að hugsa þá hugsun til enda að sjá Járnfrúna leiða nýja stjórn.  (No offense Ingibjörg)

Og þessvegna eru skoðanakannanir svona gífurlega mikilvægar.  Ég fylgdist með öðru auganu með tölum síðustu vikurnar en það voru síðustu tölurnar, daginn fyrir kosningar sem gerðu útslagið fyrir mig.  Ég var semsagt tilbúin til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn (TAKIÐ EFTIR: SJÁLFSTÆÐISFLOKKINN) til að styrkja stöðu hans umfram Samfylkingarinnar ef ég sæi fram á það að fylgi hans væri eitthvað mikið að dala og Samfylkingarinnar að styrkjast.  Og hefði gert hikstalaust hefði ég þurft þess.  Á endanum fannst mér þó fylgi Sjálfstæðismanna vera það sterkt að mitt væri óþarft og betra væri fyrir mig að styrkja minn flokk enn frekar umfram Samfylkinguna og því kaus ég Vinstri græna.

 Ég er líka mjög ánægð með hvernig Vinstri grænir komu undan þessum kosningum og vona að Geir íhugi a.m.k. þann möguleika að eiga samstarf við jafn ráðvandan og heiðarlegan mann og Steingrím, enda held ég að þeim tveimur eigi eftir að koma mun betur saman en Geir og Ingibjörgu. 

 

 


mbl.is Ríkisstjórnin hélt velli með minnsta mun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Einars

Lest þú bara niðurlagið, eða hvað?  Fólkið í flokkunum skiptir mig meira máli en málefnin, ég er ekki að hengja mig í smáatriðum.  Enda er ég ekki svo blinduð af grænu skýi að halda það að vinstri stjórn yrði eitthvað fullkomin.  Þú mátt alveg bóka það að slík stjórn myndi vanrækja fullt af málefnum og fara of hart fram í öðrum, alveg eins og hægri stjórn hefur gert.  Það yrði bara á öðrum sviðum.  það er enginn fullkominn, ekki einu sinni vinstri grænir. 

Önnur staðreynd er sú að hætta var á að Samfylkingin næði meirihluta í þessum kosningum og ég vil alls ekki sjá þann flokk við stjórnvölinn í landsmálum.  Hefði ég þurft að velja á milli Sjálfstæðisflokks eða Samfylkingar hefði ég valið Sjálfstæðisflokk af einni ástæðu:  Ísland er eitt af bestu löndum heims að búa í þökk sé góðri stjórn, það þýðir ekkert að loka augunum fyrir þeim staðreyndum bara vegna þess að blátt er ekki nógu góður litur.  Ég er ekki rasisti og hengi mig ekki í litum .

Nú er hinsvegar stjórnarandstaðan orðin svo sterk að það ætti að vera hægur leikur fyrir vinstri flokkana að koma í gegn sínum baráttumálum varðandi aldraða, öryrkja og láglaunafólk ásamt því að geta veitt stjórninni nægilegt aðhald í stóriðjumálunum.  Engin ríkisstjórn er fullkomnuð án stjórnarandstöðu og hana erum við nú komin með stóra og sterka. 

Sigrún Einars, 14.5.2007 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband