Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Blæs á þig lávarður!

Get ekki annað en hlegið að vitleysunni í þessum kalli.

 

Í fyrsta lagi þá erum við ansi langt komin frá forfeðrum okkar, víkingunum, eða um 1000 ár eða svo.  Bretar hafa þó enn yfirráð yfir Kanada, Ástralíu og fleiri ríkjum sem þeir hreinlega eignuðu sér með yfirgangi og frekju.  Ekki má heldur gleyma því að þeir voru líka víkingar svo að ef við ætlum að fara að bera okkur saman þá núllast samanburðurinn út með víkingunum en þeir ná svo yfirhöndinni í ræningjatilburðum með eignarhaldi sínu á annara manna ríkjum.

Bretland: 0  -  Ísland: 1

Í öðru lagi talar hann svo um að forfeður okkar hafi ekki lagt raunhæft mat á möguleika sína þegar þeir flúðu Noreg en sjáiði bara hvað við eignuðumst flott og fallegt land.  Og eigum það ennþá, alveg sjálf!  Það má vel vera að þeir hafi ekki hugsað mjög langt þegar þeir yfirgáfu Noreg og anað kannski beint út í óvissuna en hræddir voru þeir ekki og þennan kjark höfum við blessunarlega erft.  Sagan hefur líka sýnt sig að við höfum staðið okkur bærilega, þessi litla þjóð á hraunkletti lengst úti í ballarhafi, gleymum því ekki að það er ekki langt síðan við fluttum upp úr moldarkofunum og keyptum svo Danmörk og Bretland án þess að þeir vissu hvaðan á sig stóð veðrið.  Ok, þá má auðvitað deila um lögmæti eða siðferði umræddra viðskipta en eftir stendur samt sem áður að þessir hrokagikkir eru jafn vitlausir og þeir halda fram að við séum fyrir það að hafa fallið fyrir ruglinu í útrásarvíkingunum okkar!  Sameiginleg heimska beggja þjóða núllast því út að þessu leiti.  

Staðan ennþá; Bretland: 0  -  Ísland: 1

 ÁFRAM ÍSLAND!!

 


mbl.is Hinir þrjósku Íslendingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er stolt valkyrja

Nú rignir yfir okkur fúkyrðum og skammaryrðum alls staðar að úr heiminum og óneitanlega fer um mann við að lesa allar þessar hótanir sem eru til þess ætlaðar að hræða okkur enn frekar.

En ég hef staðið frammi fyrir hótunum og kúgun og þó hjartað hafi hamast í brjósti mér hef ég blásið á þær.  Ég læt ekki buga mig með yfirgangi og frekju.  Og þó að eitthvað hafi orðið úr fyrrnefndum hótunum horfði ég samt björtum augum fram á veginn og með dyggum stuðningi ættingja og vina stóð ég þær af mér og í dag er ég sterkari kona en ég var áður.

Forsetanum okkar var greinilega órótt þegar hann las upp yfirlýsingu sína í morgun og á köflum hélt ég að hann myndi bresta í grát, enda var hann í gífurlega erfiðri aðstöðu.  En hann fylgdi sannfæringu sinni og má hann vita að að baki honum stendur stolt þjóð víkinga og valkyrja sem eru tilbúin að berjast með honum fyrir sannfæringu okkar allra.

Öxar við ána, árdags í ljóma,

upp rísi þjóðlið og skipist í sveit.

Skjótum upp fána, skært lúðrar hljóma,

skundum á Þingvöll og treystum vor heit.

Fram, fram, aldrei að víkja.

Fram, fram, bæði menn og fljóð.

Tengjumst tryggðarböndum,

tökum saman höndum,

stríðum, vinnum vorri þjóð

 Ef ég ætti flaggstöng myndi ég flagga í dag og á hverju ári þann 5. janúar til minningar um þann mikla þjóðlega kraft sem leystur var úr læðingi í dag og á að minna okkur á, um aldir alda, þann styrk sem þessi dýrðlega þjóð okkar býr yfir.

Guð blessi Ísland og guð blessi forsetann okkar 


mbl.is Staðfestir ekki Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað?

Ég er einföld sál og nenni ekki að velta mér upp úr pólitík.  En ég er ekki þessi týpa sem bregst vel við hótunum og neita að láta traðka á mér.  Ég ber enga ábyrgð á þessari Icesave vitfirru og get á engan hátt staðið undir áhættufjárfestingum breskra ríkisborgarar og sveitarfélaga sem ekki stóðust væntingar þeirra.  Og það kemur ekki einhver kall frá Bretlandi og segir mér að ef ég borgi ekki þá hljóti ég verra af.  Hver þykist hann vera?  Hann er ekkert merkilegri pappír en hver annar og hvers vegna í ósköpunum á ég að óttast hann?  Ísland er sjálfbært land og við getum fyllilega staðið undir okkur sjálf án einhverrar góðvildar frekjuþjóða sem vilja nýta vald sitt til að fá sínu framgengt.  Ok, lífið yrði kannski ekki eins og áður var en mér er bara alveg sama, ég er Íslendingur og bý yfir aðlögunarhæfni og mitt líf mun halda áfram hvort sem þessi gamli kall er vinur minn eða ekki.

Jájá, ég veit, málið er miklu flóknara en þetta og ég skil auðvitað ekki hvað hér er í húfi, enda bara einfaldur almenningur og mér er nær að láta þetta stjórnmálahyski bara sjá um þetta mál, í mínu nafni og mínu umboði enda algjörlega verið að bera hag okkar þjóðarinnar fyrir brjósti.  En sorry stína, mér finnst þetta lið bara vera gungur, upp til hópa.  Að samþykkja ábyrgð okkar vegna Icesave vegna þess að við gætum fengið "allar hinar þjóðirnar" upp á móti okkur.  Og hvað verður þá um litla Ísland?  Við munum einangrast úti í ballarhafi og aldrei nokkurn tíma aftur eiga afturkvæmt í samfélag þjóðanna.

Djöfulsins endemis vitleysa er það!  Auðvitað verða þessir frekjuhundar bálreiðir og munu leita allra leiða til að gera okkur lífið leitt enda hafa þeir verið að bíða eftir tækifæri síðan við völtuðum yfir þá í þorskastríðinu.  En við gátum bitið þá af okkur þá og afhverju þá ekki aftur núna?  Og hefur Ísland ekki ávallt verið fyrirmynd annara þjóða?  Vorum fyrst til að viðurkenna sjálfstæði Litháen, förum ekki í stríð við aðrar þjóðir, stundum ekki rányrkju og LÁTUM EKKI STÓRÞJÓÐIR VALTA YFIR OKKUR MEÐ HÓTUNUM OG FREKJU!  Væru það ekki sterk skilaboð til samfélags þjóðanna að svona háttalag gangi bara ekki upp?  Ég er viss um að við fengjum fleiri þjóðir að baki okkur en við verðum að stíga fyrsta skrefið, við verðum að sýna kjarkinn sem býr í okkur og bjóða þessu liði birginn.

Ákvarðanir skulu ávallt teknar á réttum forsendum.  Ekki undir þrýstingi, þvingunum og hótunum, slíkar ákvarðanir eru alltaf rangar.  Íslenska þjóðin gerði ekkert af sér gagnvart Icesave sparifjáreigendum og það er það sem málið snýst um.  Ef við bara stöndum saman, staðföst og örugg í sannfæringu okkar þá mun ekkert okkur skaða, við munum standa eftir sem sterkari þjóð fyrir vikið, sama hver viðbrögð úlfanna verða.

Herra forseti, ég skora á þig að vera leiðtogi þessarar þjóðar sem hér berst fyrir lífi sínu og ganga fram fyrir skjöldu sem táknmynd þess vilja sem þjóðin hefur lýst yfir.  Við samþykkjum ekki Icesave samkomulag! 

 


mbl.is Icesave-samkomulag mikilvægt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband